Við notum vafrakökur á vefsíðunni til þess að bæta þjónustu til viðskiptavina okkar. Ef þú heldur áfram án þess að breyta stillingum samþykkir þú notkun þeirra. Sjá nánari upplýsingar

IKEA endurnýtir plastúrgang sem annars myndi menga hafið

23.nóvember 2018 10:53

Í dag eru um 86 milljónir tonna af plasti í höfum heimsins. Það skiptir IKEA miklu máli að koma í veg fyrir plastmengun og því var ákveðið að ganga til liðs við NextWave, frumkvöðla sem beita sér fyrir því að plastúrgangur sé endurnýttur áður en hann nær út í haf. Með þessu framtaki stefnir IKEA á að verða hluti af alþjóðlegri plastframleiðslukeðju, sem er sú fyrsta sinnar tegundar. Markmiðið er að fyrstu vörur verkefnisins verði tilbúnar fyrir lok ársins 2019.  

 

Fyrr á árinu tilkynnti IKEA að fyrirtækið mun skuldbinda sig til að hætta að selja einnota plastvörur fyrir árið 2020, og er átakið hluti þeirrar stefnu IKEA að auka þátttöku í hringrásarhagkerfinu. Þetta tiltekna verkefni gengur út á samstarf við NextWave, samtök sem hvetja fyrirtæki, vísindamenn og félagasamtök til að endurvinna plast og nýta það í neytendavænar vörur áður en það verður að rusli í höfum heimsins.

 

Plastinu er safnað saman úr ám, lækjum eða sjó og þar af leiðandi komið í veg fyrir að það endi í hafinu sem viðbót við meira en 86 milljónir tonna af plasti sem þar eru fyrir.

 

„Afleiðingar plastmengunar eru alvarlegar og IKEA er staðráðið í að stuðla að jákvæðri lausn sem kemur í veg fyrir frekari plastmengun. Samstarf við NextWave veitir okkur tækifæri til að vinna með öðrum fyrirtækjum og þróa alþjóðlegt net sem stuðlar að því að endurnýja plast áður en það fer í hafið. Við lærum hvert af öðru og vinnum saman að því að tryggja viðskiptalegan, samfélagslegan og umhverfislegan ávinning,“ segir Lena Pripp Kovac, yfirmaður sjálfbærni hjá Inter IKEA Group.

 

Umhverfismarkmið IKEA er að allar vörur og umbúðir séu unnar úr endurnýjanlegum efnum árið 2030. Með því að gerast aðili NextWave tekur IKEA mikilvægt skref í því ferli. Stefnt er á að frumgerð fyrstu vörunnar sem unnin verður úr endurnýttu plasti verði tilbúin í lok ársins 2019. 

 

„Við viljum breyta plastúrgangi í framtíðarvöru, en fyrst og fremst viljum við hafa frumkvæði að því að koma í veg fyrir að plast mengi hafið. Við vonum að þetta samstarf leiði til nýrrar kunnáttu og nýjunga og að önnur fyrirtæki fylgi okkur eftir,“ segir Lena Pripp Kovac.

Original 523489