Við notum vafrakökur á vefsíðunni til þess að bæta þjónustu til viðskiptavina okkar. Ef þú heldur áfram án þess að breyta stillingum samþykkir þú notkun þeirra. Sjá nánari upplýsingar

IKEA nýtir hrísgrjónaplöntur í húsbúnað og dregur þar með úr loftmengun

15.desember 2018 09:58

IKEA ætlar að grípa til aðgerða í einu stærsta alþjóðlega umhverfisvandamáli samtímans með framtaki sem kallast Better Air Now – eða betra loft núna. Verkefnið hefst á Indlandi, þar sem IKEA mun nýta það sem fellur til við uppskeru hrísgrjóna og endurnýta í IKEA vörur. Það sem fellur til við framleiðslu hrísgrjóna er annars brennt og skapast við það mikil loftmengun. Markmiðið er að þróa aðferð sem getur verið fyrirmynd sem sýnir fram á hvernig hægt sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í öðrum stórborgum.

 
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnunni (WHO) er andrúmsloft um 90% jarðarbúa mengað, sem áætlað er að valdi sjö milljón dauðsföllum árlega. Indland er eitt af menguðustu löndum jarðar og á Norður-Indlandi eru níu af tíu menguðustu borgum heims.* Brennsla hrísgrjónaplantna frá hrísgrjónaræktun er eitt af því sem veldur mikilli loftmengun og það myndar stór mengunarský á Indlandi. Með Better Air Now framtakinu grípur IKEA til aðgerða gegn losun gróðurhúsalofttegunda sem felast í því að breyta leifum hrísgrjónaplantnanna í endurnýjanlegt hráefni fyrir húsbúnaðarframleiðslu.


„Heilsufarsáhrif loftmengunar eru mikil og er IKEA staðráðið í að leggja sitt af mörkum við að draga úr vandamálinu. Við vitum að brennsla á því sem fellur til við hrísgrjónauppskeru veldur mikilli mengun og með þessu framtaki vonum við að þar verði breyting á. Ef við getum fundið leið til að nýta plönturnar yrði það dýrmætt fyrir bændur, sem á endanum mun einnig leiða til betra loftslags,“ segir Helene Davidsson, yfirmaður samfélagsábyrgðar IKEA í Suður-Asíu. 
 
Í samstarfi við ríkisstjórn Indlands, einkafyrirtæki, frumkvöðla, frjáls félagasamtök, Sameinuðu þjóðirnar, háskóla, birgja og bændur, er langtímamarkmið IKEA að leggja sitt af mörkum til að jafnvel smæstu þorp Indlands hætti alfarið að brenna plönturnar. 
 
Til margra ára hefur IKEA unnið að því að draga úr loftmengun í eigin rekstri, t.d. með því að hætta notkun hættulegra efna og draga úr losun mengandi lofttegunda. Fyrr á árinu var einnig greint frá því að IKEA er að þróa lofthreinsitæki og gardínur sem hreinsa loft. 
 
„IKEA vinnur stöðugt að því að gera fólki kleift að stunda heilsusamlegan og sjálfbæran lífstíl. Það sem er í forgangi er hreint loft og Better Air Now framtakið er mikilvægt skref í þessari vegferð,“ segir Lena Pripp-Kovac, yfirmaður samfélagsábyrgðar hjá Inter IKEA Group. 
 
Fyrsta skrefið er að leggja áherslu á norðurhluta Indlands og Nýju Delí þar sem loftmengunin er mikil. Markmiðið er að framtakið verði fyrirmynd sem hægt verði að nýta í fleiri hlutum Indlands og öðrum stórborgum heimsins.
 
Fyrstu frumeintök IKEA varanna sem unnar eru úr hrísgrjónaplöntum verða tilbúnar bráðlega og stefnt er að því að hefja sölu á vörunum í IKEA verslunum á Indlandi árið 2019 eða 2020 og á fleiri stöðum í kjölfarið.

 

*Heimildir: 
www.who.int/airpollution/data/cities/en/   
www.who.int/news-room/detail/02-05-2018-9-out-of-10-people-worldwide-breathe-polluted-air-but-more-countries-are-taking-action  
http://www.who.int/airpollution/data/cities/en/