Við notum vafrakökur á vefsíðunni til þess að bæta þjónustu til viðskiptavina okkar. Ef þú heldur áfram án þess að breyta stillingum samþykkir þú notkun þeirra. Sjá nánari upplýsingar

IKEA á Íslandi 2018

27.desember 2018 11:52

Nú þegar árið er senn á enda ætlum við að líta um öxl og fara yfir það sem stendur upp úr á árinu. Margar hefðir hafa skapast í gegnum árin en við tökum nýjungum fagnandi, því þær eru mikilvægar fyrir þróun fyrirtækisins. Margar nýjar vörulínur litu dagsins ljós á árinu og nýtt samstarf við ýmsa listamenn urðu einnig að veruleika sem er skemmtileg viðbót við vöruúrval IKEA. Þá hefur IKEA á Íslandi látið sig umhverfismál í af ýmsum toga varða og hafa ýmis skref verið tekin sem sýna það svart á hvítu.

Umhverfismál IKEA á Íslandi

Umhverfisvernd er afar brýnt samfélagsmál sem IKEA leggur mikla áherslu á, hvort sem litið er til vara fyrirtækisins, reksturs eða annars sem fyrirtækinu við kemur.

Í vor voru settar sólarsellur á eina af byggingum IKEA. Það var töluvert erfið fæðing og svo var sumarveðrið eins og það var, en það breytir því ekki að IKEA rekur nú stærsta sólarorkuver á landinu! Sólarsellurnar eru tilraunaverkefni og það verður gaman að sjá eftir lengri tíma hvað kemur mikil orka þar inn, en hingað til hefur safnast næg orka til að til dæmis hlaða rafbíla starfsmanna.

Hleðslustæðum fyrir rafbíla hefur fjölgað jafnt og þétt og nú eru þau orðin rúmlega 60 við verslunina, bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk, og hleðslan er ókeypis.

Í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið Klappir var kolefnisspor starfseminnar reiknað út á árinu og meðtalið í þá útreikninga eru orku-, eldsneytis- og vatnsnotkun, gámaflutningar á vörum til landsins, flug starfsmanna og flutningur á vörum á landi. Öll losun var svo kolefnisjöfnuð, til helminga í gegnum Kolvið annars vegar og Votlendissjóð hins vegar.

Tilnefningar og verðlaun

IKEA fékk nokkrar tilnefningar og viðurkenningar á árinu. Við erum mjög stolt af þeim og þær eru okkur hvatning til að halda áfram á sömu braut og gera enn betur.

Í sumar fengum við þau gleðitíðindi að IKEA væri eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum ársins 2018 hjá VR og lenti IKEA í 9. sæti í flokki stærri fyrirtækja.

Á degi íslenskrar tungu fékk IKEA svo hvatningarverðlaun viðskiptalífsins, „Íslenska er góður bisness“, fyrir eftirtektarverða notkun á íslenskri tungu.

Síðast en ekki síst fékk IKEA á Íslandi tilnefningu til loftslagsverðlauna Festu og Reykjavíkurborgar, en viðurkenningin er veitt þeim fyrirtækjum sem þykja hafa lagt sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og náð góðum árangri í þeim málum.

Nýjar línur og samstarf

Vöruúrval IKEA er breitt og við erum bæði með línur sem hægt er að ganga að vísum og svo tímabundnar línur. Nýjungar bættust til dæmis í VADHOLMA og KUNGSFORS línurnar, sem eru ólíkar en báðar skemmtilegar viðbætur við eldhúsdeildina, SJÄLVSTÄNDIG er dæmi um óhefðbundna tímabundna línu sem unnin var í samstarfi við ýmsa hönnuði. einnig má nefna FORMIDABEL, litríka borðbúnaðarlínu, og SAMMANHANG sem inniheldur allt frá litlum öskjum og vegghillum að skáp og sófaborði.

Á árinu hóf IKEA samstarf við nokkrar hönnuði, en fyrirtækið sækist árlega eftir samstarfi við jafnt nafnkunna, reynda hönnuði sem og efnilega hönnuði sem eru að stíga sín fyrstu skref. Ástæðan er sú að flæði af fjölbreyttum hugmyndum opnar gáttirnar fyrir nýrri hönnun sem kemur á óvart. Nokkrar slíkar línur voru kynntar til sögunnar, eins og DELAKTIG í samstarfi við iðnhönnuðinn Tom Dixon, OMEDELBAR sem er óvenjulega skemmtileg lína í samstarfi við BEA ÅKERLUND og SPÄNST í samstarfi við Chris Stamp.

Ný þjónusta og forrit

Við erum alltaf að breyta og bæta þjónustu okkar til að koma til móts við breyttar þarfir viðskiptavinarins.

Á árinu bættist í teikniforritaúrvalið okkar, en við höfum í nokkur ár boðið upp á teikniforrit sem gera fólki kleift að byrja hönnunina heima. Nú geta viðskiptavinir hannað eldhús, baðherbergi, raðað saman sófum eða teiknað upp hirslur til að auðvelda kaup.

Öryggi barna hefur alltaf verið í fyrirrúmi hjá IKEA og til að hjálpa fólki við að gera heimili sín öruggari börnum var Öruggara heimili verkefnið kynnt til sögunnar. Ísland var fyrsti markaðurinn til að prufukeyra app og vinnustofur sem gera heimilið öruggara, og var mikil ánægja með hvort tveggja hjá bæði viðskiptavinum og starfsfólki.  

Í sumar fórum við í samstarf með HEKLU bílaumboði en viðskiptavinum var boðið að fá lánaðan tengiltvinnbíl til að flytja IKEA vörurnar sínar heim. Verkefnið heppnaðist mjög vel og gaf okkur fyrirheit um að þetta væri þjónusta sem við ættum að bjóða viðskiptavinum okkar til framtíðar. Nú höfum við fjárfest í rafsendibílum sem viðskiptavinir geta fengið lánaða í tvær klukkustundir fyrir aðeins 1.000 krónur. Þannig geta þeir rúllað á rafmagni með vörurnar heim.

Viðburðir

Okkur hjá IKEA þykir gaman að gera okkur glaðan dag. Í tilefni af bolludeginum voru hinar sívinsælu rjómabollur fáanlegar í sænska matarhorninu og á kaffihúsinu, við gerðum þorranum hátt undir höfði, saltkjöt og baunir bættist á matseðil veitingastaðarins á sprengidag og svo bættist snúðaveislan við á alþjóðlega snúðadeginum. Jólamánuðinn höldum við svo alltaf hátíðlegan, en hann byrjar með því að geitinni sívinsælu er komið fyrir á hólnum sínum. Í kjölfarið var mikið fjör í versluninni allar helgar fram að jólum, þar sem ýmis skemmtiatriði og uppákomur áttu sér stað. Viðskiptavinum var boðið upp á smákökusmakk og jólaglögg, og svo var jólamyndatakan með jólasveininum á sínum stað.

Veitingasvið

Veitingastað IKEA þekkja flest allir landsmenn. Á sama tíma og við héldum í sænsku hefðirnar í bland við þær íslensku, þá reyndum við eftir bestu getu að koma til móts við viðskiptavini og þróa og breyta matseðlinum. Við höfum fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir bæði grænmetis- og veganréttum og nú fæst vegan-grænmetispylsa í IKEA bistro, hægt er að velja um grænmetisrétti á veitingastaðnum og veganrétti á kaffihúsinu.

Fyrir kjötunnendur kynntum við í fyrsta skipti Lambrúar til leiks en það er nýtt nafn á febrúarmánuði. Þetta vakti skemmtilega athygli og gleði hjá unnendum íslensks lambakjöts og einnig fjölmiðlum.

Í ár urðu miklar breytingar í sænska matarhorninu. Svæðið undir verslunina sjálfa var minnkað og bakaríið stækkað. Nú fæst ekki bara eitt besta brauð í bænum á frábæru verði í bakaríi IKEA, heldur er líka hægt að grípa með sér smárétti eins og smurbrauð, salöt og tilbúnar samlokur, til viðbótar við kleinurnar, ástarpungana og annað góðgæti.