Við notum vafrakökur á vefsíðunni til þess að bæta þjónustu til viðskiptavina okkar. Ef þú heldur áfram án þess að breyta stillingum samþykkir þú notkun þeirra. Sjá nánari upplýsingar

DELAKTIG 2.0 línan er komin

17.janúar 2019 13:43

Við kynnum með stolti nýja línu úr samstarfi IKEA og breska iðnhönnuðarins, Tom Dixon, sem var að koma í verslunina.

Síðastliðinn vetur hófum við sölu á DELAKTIG sófalínunni sem hlotið hefur eftirtekt og notið vinsælda meðal viðskiptavina. Hún hlaut á síðasta ári alþjóðlegu RED DOT verðlaunin í flokki vöruhönnunar. Farsælt samstarf við hönnun fyrstu línunnar varð til þess að ráðist var í áframhaldandi samstarf og úr varð DELAKTIG 2.0 sem inniheldur rúm í sama stíl og sófarnir.

Forvitni og eldmóður einkenna IKEA og því erum við alltaf í leit að nýjum lausnum til að mæta ólíkum þörfum heimila dagsins í dag og morgundagsins. Þar sem margir búa í smærri rýmum en áður tíðkaðist er vaxandi þörf fyrir húsbúnað sem hentar mismunandi aðstæðum og athöfnum. Samstarfið við Tom Dixon var því tilvalið, þar sem hann var hugfanginn af því hvernig IKEA-„hakkarar“ taka vörur IKEA og aðlaga þær að sínum kringumstæðum og stíl og gera þær persónulegar og einstakar. Í fyrstu varð úr DELAKTIG sófalínan – en DELAKTIG þýðir þátttaka á sænsku, sem er einmitt svo lýsandi fyrir línuna þar sem hún er unnin í samstarfi og kaupandinn tekur einnig þátt með því að hafa möguleika á því að breyta og aðlaga húsgögnin og bæta við aukahlutum úr línunni á þann hátt sem honum hentar. Eins og Tom Dixon sagði: „Því fleiri sem taka þátt í DELAKTIG, því betra. Þannig eiga nútímaviðskipti að vera“.

Fókusinn var því settur á að kanna hvernig fólk nýtir vörurnar okkar; kröfuna um að geta gert þær að sínum. Í hönnunarferlinu var sóttur innblástur í tækniiðnaðinn. Hugmyndin þróaðist og ákveðið var að framleiða húsgögn með iðnaðaryfirbragði sem myndu ögra hefðbundinni framleiðslu og kanna notkun á nýju hráefni. Í fyrstu atrennu var útkoman sófinn og nú bíðum við spennt eftir rúminu úr DELAKTIG 2.0 línunni sem er nú komið í verslunina.

Rúmið er í sama stíl og sófinn þar sem stílhreinn mínímalískur iðnaðarbragur fær að njóta sín og sjálfbærni, ending, sveigjanleiki og sköpunargáfu fólks er gert hátt undir höfði. Grunnur DELAKTIG línanna er álrammi sem samanstendur af að minnsta kosti 50% endurnýjuðu hráefni og á sama hátt og sófinn er auðveldlega hægt að bæta við, færa til eða fjarlæga sérhannað hliðarborð og lampa eins og hentar hverju rými og aðstæðum fyrir sig. Þar að auki er hægt að hafa rúmið án höfðagafls eða velja milli tveggja mismunandi höfðagafla. Í DELAKTIG 2.0 línunni bætast einnig við þrjú ný og endingarbetri áklæði fyrir sófalínuna.