Við notum vafrakökur á vefsíðunni til þess að bæta þjónustu til viðskiptavina okkar. Ef þú heldur áfram án þess að breyta stillingum samþykkir þú notkun þeirra. Sjá nánari upplýsingar

IKEA skuldbindur sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna framleiðslu um 80%

30.janúar 2019 16:35

Í tengslum við COP24 í fyrra tilkynnti IKEA næsta stóra skref fyrirtækisins til að ná kolefnishlutleysi, og leggur þar áherslu á framleiðsluna*. 

 

Markmið IKEA fyrir 2030 er að draga meira úr losun gróðurhúsalofttegunda en öll virðiskeðja IKEA losar, á sama tíma og vöxtur fyrirtækisins heldur áfram. „Það krefst grundvallarbreytinga á virðiskeðjunni og framleiðsluaðferðum“, að sögn framkvæmdastjóra Inter IKEA Group, Torbjörn Lööf. 

 

Meira en helmingur kolefnisspors IKEA er tilkominn vegna hráefnisnotkunar í vörurnar og framleiðsluna*. Til að taka skrefið yfir í lægra kolefnisspor hyggst IKEA auka notkun á endurunnu og endurnýjanlegu hráefni og þróa léttari vörur. 

 

IKEA hyggst ráðast í eftirfarandi aðgerðir*: 

 

  • Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna framleiðslu um 80% fyrir 2030, miðað við viðskiptaárið 2016 
  • Að keppa að því að nota eingöngu endurnýjanlega orku (raforku, orku til hitunar og loftkælingar, aðra orkugjafa) í framleiðslu fyrir 2030, þar sem það er æskilegt
  • Að hætta notkun á öllu jarðefnaeldsneyti á framleiðslustöðum**, þar sem það er æskilegt, og draga þannig verulega úr kolefnisspori og bæta loftgæði
  • Ráðast í aðgerðir gegn notkun á jarðefnaeldsneyti hjá birgjum vefnaðarvöru í Indlandi, Indónesíu, Pakistan og Tyrklandi í síðasta lagi fyrir 2030, með 2025 að markmiði. Að bjóða hlutaðeigandi aðilum og öðrum fyrirtækjum í vefnaðarvöruiðnaði, húsbúnaðarframleiðslu og skóframleiðslu að slást í hópinn 

 

„Við komum til með að veita enn meiri innblástur og gera viðskiptavinum okkar kleift að lifa heilsusamlegu og sjálfbæru lífi heima hjá sér,“ segir Lena Pripp-Kovac, yfirmaður sjálfbærnimála hjá Inter IKEA Group. „Allar aðgerðir skipta máli. Til dæmis ætlum við að bæta orkunýtni LED ljósaperanna enn frekar og kynna til sögunnar fleiri grænmetiskosti á veitingastaðnum. Eins erum við að þróa vistvænna lím til að nota á viðarvörurnar okkar, sem getur minnkað heildarkolefnisspor IKEA um allt að 6%.“

 

Kolefnisspor IKEA og ábyrgð teygja anga sína út fyrir mörk starfsemi fyrirtækisins og í gegnum allan líftíma varanna, allt frá öflun hráefnisins, framleiðslu og flutningi til notkunar inni á heimilum viðskiptavina um allan heim og hvernig þeim er að lokum fargað.

 

„Við ætlum okkur að vera í fararbroddi, taka höndum saman við hlutaðeigandi, allt frá birgjum til viðskiptavina og samstarfsaðila, og grípa til aðgerða sem stuðla að lágkolefnissamfélagi. Í krafti styrks okkar, stærðar og útbreiðslu getum við haft gríðarleg jákvæð áhrif,“ segir Torbjörn Lööf.  

 

*Umfangið nær til framleiðslu í eigin verksmiðjum og framleiðslu beinna birgja húsbúnaðar, íhluta og vörulista. Umfangið nær einnig til eldsneytis sem nýtt er í starfsemi IKEA, eins og á lyftara og eigin flutningabíla, en nær ekki til eldsneytis á bifreiðir birgja og flutningabíla til og frá birgjum eða verksmiðjum.

**Umfangið nær ekki til birgja vefnaðarvöru innan Category Area (CA) Textiles í Indlandi, Indónesíu, Pakistan og Tyrklandi. Frá 2017, var jarðefnaeldsneyti 17% af kolefnisspori IKEA frá eigin verksmiðjum og frá framleiðslu beinna birgja húsbúnaðar, íhluta og vörulista. ​