Við notum vafrakökur á vefsíðunni til þess að bæta þjónustu til viðskiptavina okkar. Ef þú heldur áfram án þess að breyta stillingum samþykkir þú notkun þeirra. Sjá nánari upplýsingar

IKEA hlýtur AEO vottun fyrst íslenskra fyrirtækja

8.október 2019 15:27

„Þetta var vandað og áhugavert ferli sem við erum afar stolt af að hafa klárað með glæsibrag, og það fyrst íslenskra fyrirtækja,“ segir Stefán Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi. „Vinnan við þetta hófst snemma á árinu þannig að þetta var töluvert langt ferli sem færði okkur fjölbreyttar áskoranir og jafnframt nýja þekkingu. Við þurftum að líta í eigin barm, fínpússa ferla og við komum tvímælalaust sterkari út úr því,“ segir Stefán. Sigurður Skúli Bergsson, tollstjóri, afhenti Stefáni vottunarskjalið formlega í lok síðustu viku.

Vottunin er alþjóðleg gæðavottun sem felur í sér að fyrirtæki er talið vera öruggur hlekkur í aðfangakeðjunni. Nú hefur IKEA á Íslandi hlotið vottunina „viðurkenndur rekstraraðili“ sem þýðir að fyrirtækið tileinkar sér ábyrga tollmeðferð og uppfyllir kröfur um alþjóðlega vöruflutninga.

Markmiðið Tollstjóra með innleiðingu á AEO öryggisvottun er að tryggja samkeppnishæfni íslensks inn- og útflutnings og stuðla þannig að bættu markaðsaðgengi íslenskra útflutningsgreina og greiða fyrir lögmætum viðskiptum þvert á landamæri. Fyrirtæki sem eru með starfsemi hér á landi og eru hluti af alþjóðlegu aðfangakeðjunni geta sótt um vottunina. Ávinningurinn felst í hraðari tollafgreiðslu, tímasparnaði, minni tilkostnaði og auknum fyrirsjáanleika í alþjóðlegum vöruflutningum. Nánari upplýsingar um vottunina má fá á vef Tollstjóra, www.tollur.is