Við notum vafrakökur á vefsíðunni til þess að bæta þjónustu til viðskiptavina okkar. Ef þú heldur áfram án þess að breyta stillingum samþykkir þú notkun þeirra. Sjá nánari upplýsingar

Lofthreinsandi gardínur

10.desember 2019 14:09

Gardínur sem hreinsa loft hljóma framandi en IKEA hefur hafið framleiðslu á lofthreinsigardínum sem verða fáanlegar í versluninni næstkomandi febrúar.

Þar sem loft er forsenda lífs og mikilvægt að gæði loftsins séu góð vildi IKEA hjálpa fólki að bæta loftgæði í heimahúsum og fékk vöruhönnuð í lið með sér til að hanna GUNRID lofthreinsgardínurnar.

Vöruhönnuðurinn Mauricio Affonso var tilvalin í verkið því hann lætur sér þessi mál varða. „Fyrir mér er mikilvægt að þróa vörur sem skipta máli og virkilega leysa vanda. Allir eigi skilið að anda að sér hreinu lofti,“ segir vöruhönnuðurinn.

Samkvæmt World Health Organization (WHO) er loftmengun einn stærsti umhverfisvandi jarðar því mengun hefur bein áhrif á líf fólks og getur bæði leitt til langvarandi sjúkdóma og dregið fólk til dauða. Talið er að einn af hverjum átta einstaklingum láti lífið vegna loftlagsmengunar. Mengun innandyra dregur um 4,3 milljónir einstaklinga til dauða. Sums staðar er mengun fimm sinnum meiri innandyra en utandyra.

„Margir vita að loftmengun utandyra er vandamál en færri gera sér kannski grein fyrir því að loftið innandyra getur einnig verið slæmt. Því lítum við á það sem skyldu okkar að auka þekkingu fólks á þeim vandamálum sem fylgja innandyramengun svo fólk geti brugðist við,“ segir Mauricio.

Mauricio hefur unnið með verkfræðingum, hönnuðum og sérfræðingum við að finna hagkvæma lausn til að hreinsa loft innandyra. Tæknin hefur verið í þróun hjá IKEA síðustu ár í samstarfi við háskóla í Evrópu og Aísu, IKEA birgja og frumkvöðla. Afurð þessa samstarfs er lofthreinsigardínan GUNRID, vefnaður sem brýtur niður mengunaragnir í loftinu eins og óþef og formaldehýð.

„Við vildum hanna einfalda og hentuga vöru sem hreinsar loftið án þess að taka mikið pláss inni á heimilinu. Hún þurfti að nýtast á marga vegu og brjóta niður mengun sem mörg lofthreinsitæki skilja eftir,“ segir Mauricio.

Framleiðslutæknin að baki GUNRID er einstök. Vefnaðurinn er húðaður með þunnu lagi af steinefnum og ljóshvata. Þegar birta fellur á efnið brýtur það helstu mengunarvalda niður.

Eins og áður sagði verður GUNRID lofthreinsigardínan fáanleg í verslun IKEA í byrjun næsta árs. Þetta er ein fyrsta vara IKEA sem vinnur á innandyramengun en líklega ekki sú síðasta.