Við notum vafrakökur á vefsíðunni til þess að bæta þjónustu til viðskiptavina okkar. Ef þú heldur áfram án þess að breyta stillingum samþykkir þú notkun þeirra. Sjá nánari upplýsingar

IKEA á Íslandi 2019

2.janúar 2020 14:59

IKEA 2019

IKEA á Íslandi

Nú er enn eitt árið að enda komið og þetta ár var viðburðaríkt hjá IKEA á Íslandi. Á árinu fengum við 2.400.024 gesti og þar af voru 880.520 viðskiptavinir, það er því óhætt að segja að það sé ávallt líf í verslun IKEA.

Á stórum vinnustað eru óhjákvæmlega alltaf einhverjar starfsmannabreytingar. Starfsmannafjöldinn fór mest upp í 389 starfsmenn og 470 með hlutastörfum. Stefán R. Dagsson tók við starfi framkvæmdastjóra IKEA í maí en hann starfaði sem verslunarstjóri IKEA síðastliðin 11 ár ásamt því að vera aðstoðarmaður fyrrum framkvæmdarstjóra síðastliðin þrjú ár, hann hefur í heildina starfað hjá IKEA í 27 ár og þekkir því starfsemi fyrirtækisins vel.

Hjá IKEA starfar fólk af ýmsum þjóðernum eða 40 talsins! Íslendingar eru fjölmennastir þar á eftir eru Víetnamar, Pólverjar og svo fólk frá Filippseyjum.

 

Umhverfismál

Í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið Klappir var kolefnisspor starfseminnar reiknað út á árinu og meðtalið í þá útreikninga eru orku-, eldsneytis- og vatnsnotkun, gámaflutningar á vörum til landsins, flug starfsmanna og flutningur á vörum á landi. Öll losun var svo kolefnisjöfnuð, til helminga í gegnum Kolvið annars vegar og Votlendissjóð hins vegar.

Á árinu var stofnaður umhverfishópur IKEA sem er vettvangur fyrir starfsfólk til að fá innsýn í og hafa áhrif á vinnu fyrirtækisins í umhverfismálum.

Sífelld aukning er á vörum sem unnar eru úr endurunnu efni eða endurvinnanlegu. Einnig leitast hönnuðir IKEA við því að hanna vörur úr hráefni sem gengur minna á auðlindir jarðar eins og bambus sem vex hratt og því umhverfisvænna hráefni. Einnota plast heyrir nú sögunni til og verður ekki til sölu í verslunum IKEA frá og með 1. Janúar 2020.

 

Nýjar vörulínur

Það eru alltaf einhverjar nýjungar í vöruúrvali hjá IKEA og þrjár nýjar sófalínur litu dagsins ljós á síðasta ári. Við hófum samstarf við Sonos og SYMFONISK hátalararnir fóru í sölu nú í desember. Árlegur Art Event var haldinn í apríl og þetta árið var viðfangsefnið mottur sem hannaðar voru af ýmsum hönnuðum. Þar á meðal var ein motta eftir Virgil Abloh sem vakti verðskuldaða athygli. Hönnuðurinn kom svo aftur við sögu hjá IKEA þegar MARKERAD línan var kynnt í nóvember. Það er skemmst frá því að segja að það var röð inn í verslunina og hlupu viðskiptavinir af stað til að freista þess að kaupa vörur eftir hönnuðinn. Vinsælustu vörurnar seldust upp á örfáum mínútum og flestar vörurnar voru uppseldar eftir tvo daga í sölu.

 

Viðburðir

Okkur hjá IKEA þykir gaman að gera okkur glaðan dag. Við höldum í hefðir og fögnum bolludeginum með hinum sívinsælu rjómabollum í sænska matarhorninu og á kaffihúsinu. Á sprengidag bættist saltkjöt og baunir við á matseðil veitingastaðarins og alþjóðlegi snúðadagurinn var haldin hátíðlegur, svo eitthvað sé nefnt. Jólamánuðurinn var fjörugur, geitin var sett upp á hólinn og ýmsar uppákomur eins og jólasveinamyndataka, smákökkusmakk var á víð og dreif um verslunina.

Við breyttum einnig til og í mars fórum við í samstarf við sænska sendiráðið á Íslandi og kynntum Svíþjóð fyrir gestum IKEA með „Saman til Svíþjóðar”. Ýmislegt skemmtilegt var gert í tengslum við það, við fengum til dæmis sænska kokka í heimsókn og þeir elduðu ekta sænska rétti og sænskur konditor framreiddi dásamlega eftirrétti og kenndi bökurum okkar handabrögðin. Við fluttum inn plastelg í raunstærð og höfðum hann í anddyri verslunarinnar sem vakti mikla lukku. Elgurinn hlaut nafnið Mosi eftir að mörg hundruð tillögur bárust frá fylgjendum okkar á Instagram. Við skoruðum einnig á fylgjendur okkar á Facebook að koma og taka þátt í Surströmming áskorun, tíu aðilar voru valdir til að koma og keppast um hver væri fljótastur að sporðrenna „ónýtri“ síldinni. Í versluninni var svo ratleikur sem gestir og gangandi gátu tekið þátt í og voru verðlaunin ferð fyrir alla fjölskylduna til Svíþjóðar.

 

Veitingasvið

Veitingastað IKEA þekkja flest allir landsmenn, enda er hann geysivinsæll bæði í hádeginu og á kvöldin. Á veitingasviðinu reynum við eftir bestu getu að koma til móts við viðskiptavini og þróa og breyta matseðlinum í takt við tímann. Við höfum til dæmis fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir bæði grænmetis- og veganréttum og nú er hægt að velja um grænmetisrétti á veitingastaðnum og veganrétti á kaffihúsinu. Í febrúarmánuði var Lambrúar haldinn hátíðlegur með tveimur lamba-kjötsréttum á veitingastaðnum en auk þess var ketómataræðið í algleymingi og að sjálfsögðu tókum við þátt í æðinu og buðum upp á ýmsa fjölbreytta rétti fyrir ketóelskandi þjóð.

Veitingasvið IKEA hlaut MSC-vottun fyrst íslenskra fyrirtækja. Vottunin er alþjóðlega gæðavottun sem felur í sér að fyrirtæki er talið vera öruggur hlekkur í aðfangakeðjunni. Nú hefur IKEA á Íslandi hlotið vottunina „viðurkenndur rekstraraðili“ sem þýðir að fyrirtækið tileinkar sér ábyrga tollmeðferð og uppfyllir kröfur um alþjóðlega vöruflutninga.

Vinsældir bakarísins fara sífellt hækkandi og er það orðið það bakarí á Íslandi sem kaupir hvað mest af hveiti yfir árið, enda rjúka kleinurnar, nýbökuð brauðin og smurðu samlokurnar út. Valentínusartertan, eða tilfinningatertan, vakti einnig eftirtekt, bæði fyrir það hversu góð hún var og einnig vegna þess að kaupandinn gat valið úr skilaboðum til að láta fylgja með tertunni.

 

Starfsfólk IKEA óskar gestum sínum gleðilegt nýtt ár!