Við notum vafrakökur á vefsíðunni til þess að bæta þjónustu til viðskiptavina okkar. Ef þú heldur áfram án þess að breyta stillingum samþykkir þú notkun þeirra. Sjá nánari upplýsingar

Mannauður

Mannauður fyrirtækisins er dýrmætur og byggir árangur IKEA á reyndu og hæfileikaríku starfsfólki sem er tilbúið að leggja sig fram og sýna frumkvæði. Við leggjum ríka áherslu á að laða að okkur metnaðarfullt, jarðbundið og jákvætt starfsfólk.


Upphaf starfs

Við ráðningu er tekið mið af hæfni, þekkingu, reynslu og gildum umsækjenda og leitast við að velja þann sem hæfir starfinu best. Fyrstu daga í starfi fer nýliði í gegnum sérstakt nýliðaferli og fer svo í framhaldi í sérhæfðari þjálfun í sinni deild þar sem hann fylgir reyndari starfsmanni eftir í starfi.

Starfsumhverfi og stjórnun

Gott starfsumhverfi er lykilþáttur í að starfsmönnum líði vel og geti sinnt starfi sínu eins vel og mögulegt er. Við stuðlum að því á hverjum degi, meðal annars með því að temja okkur jákvæða samskiptahætti, gott upplýsingaflæði, gagnkvæma virðingu og faglega stjórnun. Ennfremur er ýtt undir jákvæðan og heilbrigðan starfsanda með góðu starfsmannamötuneyti, reglulegum viðburðum, upplýsingafundum og námskeiðum svo eitthvað sé nefnt.

Heilbrigði

Stuðlað er að heilbrigði og vellíðan meðal annars með því að bjóða upp á heilsufarsráðgjöf, árlegar heilsufarsmælingar, aðgengi að hollum og næringarríkum mat í mötuneyti starfsmanna, sveigjanleika í starfi, jákvæðum samskiptaháttum og viðburðum sem efla starfsanda og vellíðan í starfi.

Starfsþróun

Mikilvægur liður í að viðhalda starfshvata og ánægju er að starfsmönnum gefist kostur á að þróast í starfi. Starfsmönnum IKEA býðst að taka þátt í ýmsum námskeiðum og fræðslu, færa sig til í starfi og vinna sig upp í ábyrgðarmeiri stöður. Það er á ábyrgð hvers og eins starfsmanns að sækjast eftir því að þróa sína færni. Hver er sinnar gæfu smiður!

Vinnan og einkalíf

Stuðlað er að því að starfsmenn eigi auðvelt með samræma einkalíf og vinnu. Við sýnum því skilning og berum virðingu fyrir fjölskyldu- og einkalífi starfsmanna. Þannig náum við árangri saman.

Eftirfylgni

Fylgst er með framgangi mannauðsstefnu okkar, meðal annars með mánaðarlegum mælingum á lykiltölum, árlegri vinnustaðagreiningu og starfsmannasamtölum.