Við notum vafrakökur á vefsíðunni til þess að bæta þjónustu til viðskiptavina okkar. Ef þú heldur áfram án þess að breyta stillingum samþykkir þú notkun þeirra. Sjá nánari upplýsingar

Hvaða ferð velur þú?

Ferð 1

Í ferð 1 er flogið til Kastrup og lestin tekin yfir til Svíþjóðar. Í Malmö má strax byrja að njóta strandlífsins eða kanna notalega miðborgina. Leiðin liggur svo í norður um Skånes Djurpark, sem er stærsti dýragarður í heimi fyrir norræn dýr, vatns- og leikjagarðinn Barnens Gård, gjöfular laxveiðiár, elgssafarígarð og í Glasriket eru sumar af frægustu glerverksmiðjum Svíþjóðar. Í Vimmerby er Astrid Lindgrens Värld þar sem börn og fullorðnir hitta allar vinsælu söguhetjurnar og í High Chapparal færðu að kynnast kúrekum og indíánum í villta vestrinu. Í Helsingborg má svo finna yndislegar strendur og verslanir í nálægð við fallega náttúruna.

A - Malmö

Leigðu bíl, til dæmis á bensínstöðvum Circle K, þar sem má oft fá bílaleigubíl á góðu verði. Á góðum sumardegi er tilvalið að verja deginum á ströndinni. Í aðeins um 20 mínútna göngufjarlægð frá miðborg Malmö er Ribersborg ströndin. Skánn liggur að sjó í þrjár áttir og er svæðið paradís fyrir þá sem vilja ekta baðstrandafrí. Þú munt finna allt frá skjannahvítum ströndum fyrir alla fjölskylduna til líflegra partýstranda.
Hér leiðum við þig að þeim bestu!

Tillögur að gistingu:

Malmö

B - Skånes Djurpark, Höör

Í stærsta dýragarði í heimi fyrir norræn dýr er alltaf eitthvað spennandi að gerast. Prófið töfrandi daga uppfulla af leik, ævintýrum og spennandi upplifunum!

Hlekkir

Upplifanir í dýragarði

Dýragarður

C - Barnens gård, Eriksbergs safaripark och Mörrums laxfiske - Karlskrona

Dreymir þig um spennandi sumardaga með fiðrildi í maganum og notalegar upplifanir fyrir alla fjölskylduna? Þá er dagur með börnunum í Barnens Gård algjörlega málið. Leikið ykkur í leikjalandi, kynnist dýrunum og buslið í vatnalandinu!

Hlekkir

Safari garður


Eriksberg Hotel & Nature Reserve veitir þér heildarupplifun í kringum dýrin, náttúruna, gistingu og mat. Á svæðinu eru byggingar frá fimm öldum sem hýsa fyrsta flokks hótel, veitingahús, vínkjallara og verslun sem selur afurðir beint frá Eriksberg svæðinu.

Dádýr

Rétt sunnan við Karlskrona, býður Mörrum upp á laxveiði og úrval af gistingu í mismunandi verðflokkum.

Hús í skógi

Maður að veiða

D - Elgsafari, Orrefors gler, Kosta

Í elgjagarðinum Grönåsen Älg- & lantdjurspark geta gestir fylgst með elgjunum eftir 1.300 metra langri leið í skógargerði. Í garðinum eru einnig svín, geitur, hænur, kanínur og hestar. Hér er einnig minjagripaverslun, hlaðin af vörum tengdum elgnum, hunang sem framleitt er í sveitinni, sultur, sinnep o.fl. Hægt er að gæða sér á elgspylsum og reyktri skinku og grilla í stóra grillskálanum.

Elgsafari

Hefur þú áhuga á hönnun? Í skógunum milli Växjö og Kalmar er Glerríkið (Glasriket) en þar hefur verið framleitt gler frá árinu 1742. Í dag finnur þú bæði gler til daglegra nota sem og framleiðslu í hæsta gæðaflokki, bæði í Kosta Boda, Orrefors og í litlum vinnustofum.

E - Kalmar Slott

Kastali

Kastalinn í Kalmar er endurreisnarhöll sem reist var á tímum Gustavs Vasa. Í dag er hann einnig kastali barnanna með ýmsum viðburðum fyrir þau. Frá Kalmar er sex kílómetra brú þvert yfir Kalmarsund til Ölands. Fornleifar benda til þess að búseta hafi verið á eyjunni um árið 8000 fyrir Krist. Á Ölandi er sumarhöll konungsfjölskyldunnar, Soliden

Tillögur að gistingu

F - Heimur Astrid Lindgren, Vimmerby

Í Heimi Astrid Lindgren hittið þið Línu Langsokk, Emil í Kattholti, Ronju ræningjadóttur, Karl og Jónatan úr Bróðir minn Ljónshjarta og allar hinar vinsælu sögupersónurnar. Hefjið ferðina með heimsókn í sögulegan miðbæ Vimmerby. Hlaðið niður ókeypis appi, Astrid Lindgrens Vimmerby, og gangið um á slóðum höfundarins. Skemmtun fyrir alla fjölskylduna! Á göngunni komið þið að Astrid Lindgrens Näs þar sem þið getið séð spennandi sýningu um þennan ástkærasta barnabókahöfund í heimi, farið í leiðsögn um æskuheimili hennar og notið nærliggjandi garða. Ferðalagið leiðir ykkur svo inn í hinn ævintýralega leikhúsgarð „Astrid Lindgrens Värld“, þar sem þið hittið Línu, Emil, Ronju og alla hina.

Lín Langsokkur

G - High Chaparral

Velkomin til Villta Vestursins og stóra ævintýri sumarsins. Hér upplifir þú heim fullan af töfrandi sýningum, heillandi hetjum og skúrkum, knæpum með góðum mat og margt fleira. Farðu í kúrekastígvélin, skelltu þér á hestbak og hafðu púðurbyssuna við höndina því núna ertu í Villta Vestrinu. High Chaparral er eins og tímaflakk aftur til Ameríku árið 1870 með kúrekum, indíánum og öllu sem þeim fylgir.

Kúrekar

Tillaga að gistingu:

Hlekkir

http://www.highchaparral.se/sv/press/bildbank

H - Vandalorum, Värnamo

Vandalorum er safn fyrir svæðisbundna, sænska og alþjóðlega samtímalist og hönnun. Inréttingin er hönnuð af íslenska arkitektinum Sigurði Gústafssyni í samráði við Vandalorum stofnandanum Sven Lundh. Þar er frábær veitingastaður og verslun þar sem seldar eru hönnunarvörur.

Tillögur að gistingu:

Hús

I - Smålandet elgsafari, Markaryd

Farðu á bílnum og upplifðu magnað ævintýri! Upp um hóla og hæðir liggur hinn þriggja kílómetra langi skógarvegur í gegnum stóra elgsgarðinn og svo áfram að amerískum vísundum. Kannski sérðu elg fá sér að drekka í læknum eða baða sig í stóru tjörninni.

Tillögur að gistingu:

Elgir

J - Helsingborg

Hér eru dásamlegar strendur, verslanir og falleg náttúra og stuttar vegalengdir á milli. Í Dunkers menningarhúsinu eru heillandi sýningar. Gakktu upp tröppurnar á topp turnsins Kärnan. Njóttu garðanna í Sofiero og Fredriksal og veitinga frá öllum heimshornum á þeim fjölmörgum veitingastöðum sem eru í Helsingborg.

Helsingborg

Tillögur að gistingu:

Ferð 2

Í ferð 2 er flogið til höfuðborgarinnar, Stokkhólms, og ferðast í suður. Leiðin liggur um Kolmården dýragarðinn, sem er sá stærsti í Evrópu, falleg veiðisvæði, skerjagarðinn við Västervik og eyjuna Gotland. Þar er bærinn Visby, sem er á heimsminjaskrá Unesco. Upplifun barnanna (og fullorðinna) nær hámarki með heimsókn í Astrid Lindgrens Värld í Vimmerby. Í upphafi eða lok ferðar er svo hægt að njóta alls þess sem Stokkhólmur hefur upp á að bjóða.

A - Arlanda flugvöllur

Leigðu bíl til dæmis hjá bensínstöðvunum Circle K eða OKQ8, en hjá þeim er oft hægt að fá góð tilboð og leigja ódýrt, sérstaklega um helgar og á sumrin. Leggðu svo í hann!

B - Dýragarðurinn Kolmården

Kolmarden skilti

Stærsti dýragarður Norðurlandanna, Kolmården er einungis 140 km frá Stokkhólmi, rétt norðaustan við Norrköping. Ef dýrin heilla ekki alla í fjölskyldunni er líka að finna hér skemmtigarð, einn magnaðasta trérússíbana í heimi, heimkynni Bamse ásamt fjölmörgum öðrum skemmtilegum viðburðum fyrir fjölskylduna. Mælt er með að gera ráð fyrir tveimur dögum í heimsóknina svo þið missið ekki af neinu!

Tillögur að gistingu

Hægt er að gista í Kolmården

C - Veiði í Ljuskön

Rétt sunnan við Norrköping, u.þ.b. 25 kílómetrum frá Kolmården, býður Ljuskön í St. Anna skerjagarðinum upp á laxveiði og gistingu í veiðikofa.

Maður að veiða

D - Heimur Astrid Lindgren, Vimmerby

Í Heimi Astrid Lindgren hittir þú Línu Langsokk, Emil í Kattholti, Ronju ræningjadóttur, Karl og Jónatan úr Bróðir minn Ljónshjarta og allar hinar vinsælu sögupersónurnar. Hefjið ferðina með heimsókn í sögulegan miðbæ Vimmerby. Hlaðið niður ókeypis appi Astrid Lindgrens Vimmerby og gangið um á slóðum höfundarins. Skemmtun fyrir alla fjölskylduna! Á göngunni komið þið að Astrid Lindgrens Näs þar sem þið getið séð spennandi sýningu um þennan ástkærasta barnabókahöfund í heimi, farið í leiðsögn um æskuheimili hennar og notið nærliggjandi garða. Ferðalagið leiðir ykkur svo inn í hinn ævintýralega leikhúsgarð „Astrid Lindgrens Värld“, þar sem þið hittið Línu, Emil, Ronju og alla hina.

Lína Langsokkur

E - Västervik

Næst liggur leiðin til borgarinnar Västervik, um 20 mínútum suður af Vimmerby, við einn fallegasta skerjagarð Svíþjóðar. Erfitt er að toppa ferð með skerjagarðsbátnum Borda. Á Västervik Resort er hægt að leigja kajak, SUP (standup paddle/paddelbräda), fara í kláf, ævintýragolf eða klífa ævintýrafjallið.

Tillögur að gistingu

Vastervik

F - Visby, Gotland

Visby, Gotland

Visby er nafnið á mögnuðum bæ á eyjunni Gotlandi. Hann er á heimsminjaskrá Unesco vegna borgarmúrs frá miðöldum auk fornra húsa og götumyndar. Til Visby er farið með ferju annað hvort frá Västervik (Destination Gotland) eða frá Oskarshamn. Í Visby er rölt eftir hellulögðum götum innan um miðaldarústir. Gaman er að líta við í áhugaverðum verslunum sem þar er að finna. Kíkið á Tofta strönd, leikið ykkur í sandöldunum, njótið sólarinnar, buslið í sjónum og prófið jafnvel brimbretti. Þá er tilvalið að skella sér til næstu eyjar, hinnar undirfögru Fårö, þar sem Ingmar Bergman bjó.

G - Nynäshamn

Hringnum er svo lokað með því að taka ferju til Nynäshamn og keyra stuttan spöl til Stokkhólms.

H - Stokkhólmur

Stokkhólmur

Hin heillandi höfuðborg Svíþjóðar er stútfull af sögu, magnaðri menningu, spennandi verslunum og iðandi mannlífi. Borgin er byggð á fjórtán eyjum og stundum kölluð Feneyjar norðursins, enda tengd saman af 57 brúm og hægt er að sigla um hana alla. Að mörgu leyti er Svíþjóð samheiti fyrir nýsköpun og hönnun. Verslanirnar eru fullar af verkum eftir nýja hönnuði og selja áhugaverðar og glæsilegar skandinavískar vörur á góðu verði. Þau hverfi sem gaman er að skoða eru meðal annars SoFo-hverfið á Södermalm (suður af Folkungagatan) en þar er hægt að fá vintage-vörur, götutísku og fleira skemmtilegt. Þar eru líka kaffihús og barir til að hlaða batteríin og dást að mannlífinu. Þeir sem vilja kynna sér hátískuvörur og nýtískulegar hönnunarverslanir ættu að kanna Östermalm. Í Gamla Stan, upprunalega borgarkjarnanum, slær sögulegt hjarta Stokkhólms. Það er auðvelt að gleyma stund og stað á rölti um steinilögð strætin, skoða aldagamla byggingarlist og kíkja í gallerí og antikbúðir. Hér má finna heimagert handverk og hönnunarverslanir á meðal hefðbundinna minjagripaverslana. Frá Gamla Stan fer ferja yfir til náttúruparadísarinnar Djurgården í miðjum Stokkhólmi. Á þessum gróðursæla griðastað er meðal annars Vasa safnið, sem hýsir hið glæsilega Vasa herskip frá 17. öld, Skansinn, elsta útisafn og dýragarður í heimi og Junibacken, safn sem er tileinkað sænskum barnabókmenntum og þá sérstaklega verkum Astrid Lindgren.

Ferð 3

Ferð 3 fer frá Gautaborg og um nærliggjandi svæði. Borgin sjálf hefur upp á margt að bjóða, allt frá skemmtigörðum til strandlífs. Norðan Gautaborgar eru yndislegir strandbæir. Smögen er til dæmis einn vinsælasti ferðamannabær Svíþjóðar og í nágrenninu er dýragarðurinn Nordens Ark. Í nágrenni Lidköping er Skara Sommarland, sem er stærsti vatnagarður Skandinavíu, og Borås dýragarðurinn þar sem hægt er að hitta ljónið Simba. Fyrir þá sem vilja versla er lágvöruverðsverslunin Gekås Ullared skyldustopp og strendurnar við Varberg eru glæsilegar.

A – Gautaborg

Stokkhólmur

Það svífur skemmtilegur andi yfir síkjunum í miðborg Gautaborgar. Sporvagnar læðast meðfram glæsilegum byggingum og fólkið gengur rólega eftir göngugötunum, til dæmis Haga Nygata sem er fræg fyrir notaleg kaffihús og skemmtilegar verslanir. Borgin er mjög heppilegur áfangastaður fyrir fjölskyldur, en einnig fyrir borgarferð. Verðlagið er hagstætt og þetta er mikil matarborg. Það eru hvorki fleiri né færri en fimm veitingastaðir sem hafa hlotið Michelin stjörnu, sem segir sitt um gæðin. Nálægt Gustaf Adolfs Torg er Kronhuset sem er byggt á 17. öld og á meðal elstu húsa borgarinnar. Rétt hjá eru Kronhusbodarna, handverksbúðir þar sem hægt er að fá handgert súkkulaði, skartgripi, leirmuni og leðurvörur. Í miðbæ Gautaborgar eru tveir garðar sem eru meðal best varðveittu 18. aldar garða Evrópu. Það er annars vegar Trädgårdsföreningen og hins vegar Botaniska Trädgården með yfir 16.000 plöntur til að dást að.

Í skemmtigarðinum Liseberg er fjöldi tækja og veitingastaða fyrir alla fjölskylduna, allan ársins hring. Rétt hjá Liseberg er tækni- og vísindasafnið Universeum. Í þriggja stjörnu Listasafni Gautaborgar er áhugavert norrænt safn sem teygir sig til 14. aldarinnar og sýnir stórar listasýningar allt árið. Yngri fjölskyldumeðlimir vilja þó kannski frekar heimsækja Einar Áskel í Alfons Åberg Kulturhuset.

Eyjarnar úti fyrir borginni eru mjög vinsælar og þar má njóta skandinavísks strandlífs sem á góðum degi gefur ströndunum í suðurhluta álfunnar ekkert eftir. Í skerjagarðinum eru tugir fallegra eyja sem hægt er að heimsækja með ferju, strætó eða bíl.

B – Marstrand og C – Smögen, Hunnebostrand, Bovallsstrand og Nordens Ark

Marstrand

Norðan Gautaborgar eru vinsælir og alveg yndislegir strandbæir, til dæmis Marstrand, Hunnebostrand, Bovallstrand, Smögen og ekki síst Fjällbacka, sem hefur öðlast frægð í bókum Camillu Läckberg. Smögen er á meðal vinsælustu ferðamannabæja Svíþjóðar og flykkjast ferðamenn þangað til að njóta sumarsins, synda í sjónum, sóla sig á sléttum klettunum, borða brakandi ferskt sjávarfang og versla á bryggjunum meðfram sjónum. Í nágrenninu er einnig dýragarðurinn Nordens Ark, sem hefur það að markmiði að vernda dýr í útrýmingarhættu.

D – Håverud, þar sem skip, lestir og bílar mætast

Håverud

Í Håverud, norðan við Trollhättan, mætast vegur, járnbraut og vatnsrás fyrir skip sem fara um skipaskurðinn Dalslands Kanal. Hér er hægt að fara í bátsferð 33,5 metrum fyrir ofan foss.

Tillögur að gistingu

E – Läckö kastalinn

Läckö

Rétt fyrir norðan Lidköping, við bakka Vänern vatnsins, er Läckö kastalinn. Byggingin, með miðaldaundirstöður og vel varðveittan barokk glæsileika, er einn af fallegustu kastölum landsins. Hér er eitthvað fyrir alla aldurshópa.

F – Skara Sommarland

Í nágrenni Lidköping er Skara Sommarland, stærsti vatnagarður Skandinavíu. Í Sommarland eru fjórar milljónir lítra af vatni og ævintýrum, skemmtigarður og kappakstur (gokart) fyrir bæði börn og fullorðna sem vilja að skemmtunin taki aldrei enda. Garðurinn býður upp á endalaust fjör, allt frá tívolítækjum og leiksvæðum til gokartbrautar og skemmtilegra vatnsrennibrauta.

Tillögur að gistingu

G – Borås dýragarðurinn

Ljón í Borås dýragarðinum

Í Borås dýragarðinum eru til sýnis stór dýr frá Afríku ásamt dýrum sem búa á norðlægum slóðum. Einnig er hægt að leika sér í Simbalandi þar sem allri fjölskyldunni gefst færi á að grilla og hitta ljónið Simba.

Tillaga að gistingu:

H – Gekås Ullared stórverslun

Fyrir þá sem vilja gera góð kaup er tilvalið að koma við (eða kannski frekar verja einum degi!) í Gekås Ullared, stærstu lágvöruverðsverslun á Norðurlöndum með yfir 100.000 vörur.

Tillaga að gistingu

Ullared lágvöruverðsverslun

I – Varberg

Frá Ullared er svo stutt í yndislegar strendur við Varberg. Sumar þeirra teljast reyndar til bestu brimbrettastranda Evrópu. Hér er einnig glæsilegt sjóbaðhús og 13. aldar virki. Virkið var til skiptis undir yfirráðum Dana og Svía en árásir voru gerðar á virkið árið 1536 og 1563.

Varberg strönd
Varberg bryggjuhús

Ferð 4

Ferð 4 er óhefðbundin að því leyti að hana má fara fótgangandi – það er að segja eftir að flogið er til Stokkhólms! Á eyjunni Djurgården standa nefnilega garðarnir í röðum og bjóða upp á skemmtun fyrir alla í fjölskyldunni. Skansen er elsta útisafn í heimi þar sem má fá innsýn í gamla tíma og heimsækja dýra-, sædýra- og húsdýragarða. Vasa-safnið telst til bestu safna heims og í Barnamenningarsetrinu Junibacken er blásið lífi í margar sögupersónur Astrid Lindgren og annarra vinsælla barnabókahöfunda. Norræna safnið er stærsta menningarsögusafn Svíþjóðar og Rosendalshöllin ásamt umlykjandi garði var upprunalega sumarhús konungsins þegar hún reis á 19. öld. Gröna Lund er svo fjörið sem enginn má missa af, að minnsta kosti ekki þeir sem elska rússíbana. Þar að auki er hægt að upplifa list og matreiðslu á heimsmælikvarða á Djurgården.

A – Dýragarðurinn og borgarsögusafnið Skansen

Skansen er elsta útisafnið í heimi og þar má meðal annars sjá hús og bóndabæi frá öllum hlutum Svíþjóðar í gegnum aldirnar. Þar er einnig dýragarður með norrænum dýrum, sædýrasafn og húsdýragarður.

Fjallaljón með ungana sína

B – Vasa safnið

Hér getur þú dáðst að 64 fallbyssu orrustufleyinu sem sökk í jómfrúarferð sinni árið 1628. Eftir 333 ár á sjávarbotni var skipinu bjargað og er það nú best varðveitta 17. aldar skip í heimi. Vasa safnið er í dag mest sótta safn Skandinavíu og samkvæmt einkunnagjöf á Trip Advisor er Vasa safnið eitt tíu bestu safna heims.

17. aldar orrustufleyi

C – Söguhúsið Junibacken

Barnamenningarsetrið Junibacken blæs lífi í margar af persónum Astridar Lindgren sem og fleiri frá bestu barnarithöfundum Norðurlandanna. Hér gefst öllum, bæði börnum og fullorðnum, færi á að heimsækja margar af sínum uppáhaldspersónum úr Norrænum barnabókmenntum.

Uppstilling úr sögu, barn búið að klifra upp fánastöng

D – Visit Djurgården

Til að uppgötva allt sem Djurgården hefur upp á að bjóða mælum við með heimsókn í Visit Djurgården og spjalli við starfsfólki staðarins. Á sumrin er hægt að leigja hér hjól eða kanó til að skoða sig betur um.

Visit Djurgården inngangur

E – Norræna safnið

Norræna safnið í Djurgården

Norræna safnið í Djurgården er stærsta menningarsögusafn Svíþjóðar og sýnir hvernig fólk á Norðurlöndunum hefur búið, klætt sig og haldið upp á hefðir sínar allt frá 15. öld. Norræna safnið opnaði árið 1873 en hefur verið á Djurgården síðan 1907.

F – Rosendalsgarður og höll

Rosendalshöllin sem reis í kringum 1820, var upprunalega sumarhús fjölskyldu konungsins Karls XIV Johans þar sem þau gátu komist frá formlegheitunum sem tilheyrðu skyldum þeirra í borginni. Höllin er nær óbreytt frá tímum Karls XIV Johans.

Rosendalshöllin

G – Prins Eugens Waldemarsudde

Listasafnið Prins Eugens Waldemarsudde er eitt mest sótta listasafn Svíþjóðar. Safnið var heimili Prins Eugen sem var á meðal fremstu landslagsmálara sinnar kynslóðar, en mörg af hans þekktustu málverkum er að finna í safninu. Í kringum húsið er fallegur garður, hannaður af Prins Eugen, þar sem má finna fjölmargar styttur eftir franska og sænska listamenn.

Listasafnið Prins Eugens Waldemarsudde

H – Veitingastaðurinn Oaxen Krog

Eftir að hafa þrætt Djurgården er gott að þurfa ekki að leita langt eftir mjög góðum mat. Þeir sem vilja gera sérstaklega vel við sig geta þá reynt að ná einum af þeim 26 stólum sem eru í boði á Oaxen Krog Þetta er veitingastaður sem leggur áherslu á norræna matreiðslu og hann hefur tvær Michelin stjörnur. Matseðillinn er árstíðabundin þar sem lögð er áhersla á gæði, bragð og sjálfbærni. Hráefni staðarins er sótt í nágrennið og í sænsku sveitirnar. Sömu línu er fylgt á Oaxen Slip bistro í næsta húsi en verðlagið þar er mun viðráðanlegra.

Veitingastaðurinn Oaxen Krog

I – Gröna Lund

Enginn má missa af skemmtigarðinum Gröna Lund, himnaríki þeirra sem elska rússíbana. Þar eru um 30 tæki og garðurinn er einnig vinsæll tónleikastaður sem hefur verið heimsóttur af vinsælum innlendum og alþjóðlegum listamönnum. Sumarið 2019 er meðal annars von á Sting, Lenny Kravitz, Smashing Pumpkins, Carly Rae Jepsen og fleiri.

Skemmtigarðurinn Gröna Lund