Við notum vafrakökur á vefsíðunni til þess að bæta þjónustu til viðskiptavina okkar. Ef þú heldur áfram án þess að breyta stillingum samþykkir þú notkun þeirra. Sjá nánari upplýsingar

Umhverfisstefna

Umhverfisvernd og meðvituð stefna til móts við sjálfbærari framtíð er nauðsynleg. Það er ekki flóknara. Sem betur fer færast umhverfisvænni lifnaðarhættir í aukana hjá jarðarbúum, en það er í mörg horn að líta þegar horft er til framtíðar. Líf okkar þarf að breytast á svo mörgum sviðum til að skapa umhverfisvænni framtíð. Stórfyrirtæki þurfa ekki síst að sinna þeirri samfélagslegu skyldu sinni að líta í eigin barm og gera starfsemi sína sjálfbærari hvar sem því verður við komið. IKEA hefur lagt mikla vinnu í að hafa umhverfisvernd til hliðsjónar í einu og öllu, hvort sem það snýst um að flokka pappír á skrifstofunni, gefa til samfélagsins eða byggja nýjar verslanir án þess að valda skaða á umhverfinu við framkvæmdirnar.

Árangursríkar aðgerðir

Við viljum hafa jákvæð áhrif á fólk og jörðina okkar allra. Um árabil hefur IKEA lagt áherslu á hámarksnýtingu auðlinda og að gera daglegt líf þægilegra fyrir sem flesta. Frá 1. september 2015 er öll bómull sem notuð er í IKEA vörur frá bómullarbændum sem nota sjálfbærari framleiðsluaðferðir, minna vatn og minna skordýraeitur. Það er gott fyrir þig, börnin þín og umhverfið. Á sama tíma förum við alla leið með LED lýsingu og seljum einungis LED perur og LED ljós. Þar með getum við einbeitt okkur að því að gera þennan umhverfisvæna kost bæði ódýrari og fallegri. Þetta eru aðeins tvær af mörgum leiðum sem við förum til að hjálpa fólki um allan heim að lifa sjálfbærara lífi. Við höfum líka sett upp yfir 700.000 sólarrafhlöður á IKEA byggingar um allan heim og það er takmark fyrirtækisins að eiga og reka 224 vindmyllur. En við erum ekki búin, við erum rétt að byrja ...

Umhverfisvernd er okkur í blóð borin

IKEA hefur sinnt umhverfismálum vel mjög lengi, og innan fyrirtækisins er alltaf talað um að umhverfisvernd sé okkur í blóð borin, ekki síst vegna uppruna fyrirtækisins, en það var stofnað af Svíanum Ingvari Kamprad í Smálöndunum í Suður-Svíþjóð þar sem vinnusemi, nægjusemi og nýtni hafa komið fólki til manns þar um slóðir í gegnum aldirnar. IKEA steig þó skrefinu lengra en áður haustið 2012 þegar gefin var út afar metnaðarfull stefna fyrirtækisins í umhverfismálum til ársins 2020, undir nafninu People & Planet Positive. Þar er tekið á afar fjölbreyttum þáttum og þeim er skipt niður í þrjá flokka:

  • Heimilislífið

  • Auðlindir og orka

  • Fólk og samfélagið

IKEA er í einstakri stöðu til að auðvelda milljónum manna að lifa sjálfbærara lífi heima. Við tökum þessa ábyrgð alvarlega og hvetjum viðskiptavini okkar til að spara orku og vatn, draga úr sóun og lifa heilsusamlegu lífi. Litlar breytingar hjá hverjum og einum af yfir 700 milljón gesta IKEA á ári, skapa breytingar sem skipta jörðina máli. Meðal markmiða fyrir árið 2020 er að auka verulega framboð á vörum sem auðvelda fólki að lifa sjálfbærara lífi heima við.

Sjálfbærari framtíð fyrir alla

Þar sem við Íslendingar búum svo vel að eiga greiðan aðgang að hreinni og ódýrri orku, er rafmagns- og vatnssparnaður ekki eins mikilvægur hér og víða annars staðar. Aftur á móti er Ísland afskekkt og því meiri áhersla á að haga flutningum þannig að þeir séu sem hagkvæmastir, ekki síst umhverfisins vegna. Það fer því eftir staðháttum hverjar helstu áherslurnar eru í hverju landi fyrir sig, en heildarstefnan er sú sama hvar sem IKEA er með starfsemi, hvort sem sú starfsemi er í formi verslunar eða á framleiðslustigi: Að stuðla á fjölbreyttan hátt að sjálfbærari framtíð fyrir alla.

Grænmeti
Flokkunarfötur
Lampi